Ölfusá, Hvítá og Þjórsá eru í klakaböndum á löngum köflum og komi til asahláku gæti hún valdið miklum usla og jafnvel tjóni á þekktum flóðasvæðum við árnar.
Þetta kemur fram í Facebookfærslu hjá Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands sem hefur vaktað ísmyndanir í ám á Suðurlandi að undanförnu.
Hvítá er í klakaböndum við Kiðjaberg svo hvergi sést í vakir en Ölfusá er opin frá ármótum niður að Ölfusárbrú. Þar hefur ís hrannast upp og þrengt að rennsli Ölfusár, en þar er þó engin hætta á ferðum þar sem Gjáin er um 15 metra djúp á þessum kafla. Neðan við Selfossbæi og niður til ósa er Ölfusá hins vegar nær alveg í klakaböndum.
Mikið frost er í veðurspám og ólíklegt að það hreyfi nokkuð við ísnum fyrr en það hlánar verulega.
Þykkur ís á Þjórsá
Neðan við Þjórsárbrú eru miklar hrannir á Urriðafossi og hefur hækkað allverulega í ánni á söndunum neðan við Egilsstaði. Þar er áin nú aðeins í um 100 m fjarlægð frá veginum. Að sögn Eldfjalla- og náttúrurvárhóps Suðurlands er þetta líklega einn mesti ís sem komið hefur í ánna í hartnær 25-30 ár.