Það hafa eflaust margir Sunnlendingar orðið varir við óboðna gesti innandyra hjá sér í haust. Sumum finnst þeir kannski krúttlegir en flestir eru þó sammála að þessir gestir – mýsnar – séu best geymdir úti.
Músakítti, músagildrur og annað hefur verið að seljast eins og heitar lummur í Húsasmiðjunni á Selfossi og hefur fólk sem er með þar til gerða eiturkassa utandyra til að eitra fyrir músunum ekki undan við setja nýja kubba í kassana. Er það mál manna að músagangurinn í ár sé óvenju mikill.
Mýsnar – sem hafa gífurlega klifurfimi – hafa verið að skríða inn um glugga hjá fólki og inn um öll möguleg op sem þau finna – sama hversu lítil þau eru. Einnig ákváðu nokkrar mýs að setjast á skólabekk í Sunnulækjarskóla á Selfossi fyrr í haust en skólaganga þeirra varð heldur endasleppt.
Þriðji mesti músafaraldur á 35 ára ferli
Sunnlenska.is setti sig í samband við Jóhannes Þór Ólafsson hjá Meindýravörnum Suðurlands um miðjan október, eða þegar fólk fór fyrst að verða við mýs innandyra. Strax í haust talaði fólk um að músagangurinn í ár væri óvenju mikill. Í samtali við sunnlenska.is þá sagði Jóhannes að það væri of snemmt að fullyrða það, en nú – mánuði síðar – telur Jóhannes óhætt að segja að músagangurinn í ár sé mikill.
„Ef ég á að segja eitthvað, þá er árið í ár kannski í þriðja sæti á mínum 35 ára ferli sem meindýraeyðir, hvað varðar músagang. Samt vil ég segja það með fyrirvara. Árið í fyrra var í öðru sæti,“ segir Jóhannes í samtali við sunnlenska.is.
Jóhannes segir að það hefði verið mjög óábyrgt að lýsa yfir miklum músagangi fyrir mánuði síðan. „Það er bara bull að gefa út þannig yfirlýsingar svona snemma. Það er í raun ekki fyrr en í desember sem maður getur verið viss um að það sé mikill músagangur – þegar mýsnar koma aftur í kannski þriðja eða fjórða skiptið.
Gera nokkrar árásir yfir veturinn
En hvað er það sem veldur svona miklum músagangi? „Það eru umhleypingar sem ráða stofninum – hvað það voru margar sem lifðu af veturinn. Það er það sem skiptir öllu máli. Svo er það kornframleiðslan yfir sumarið – þá erum við til dæmis að tala um gras, fræ, korn og fræ af trjám,“ segir Jóhannes.
„Óðal músa er ákveðið stórt. Það er erfitt að segja hversu stórt en það er x-stórt. Það fer eftir því hvað það er mikill matur á svæðinu. Ef það er mikill matur þá geta þessi óðul orðið gríðarlega stór. Gáfuðu mýsnar skipuleggja sig hvernig hlutirnir eiga að vera. Heimska mannsins er að halda að dýrin séu heimsk.“
Samkvæmt Jóhannesi eru oft gerðar tvær til þrjár árásir á okkur yfir veturinn. „Ég get ekki sagt til um það núna hvort það sé meira af músum á einu svæði en öðru – það kemur ekki í ljós fyrr en í desember.“
Framkvæmdir á svæðinu hafa áhrif
Þjóðtrúin segir að mikill músagangur boði harðan vetur – jafnvel eldgos. Jóhannes gefur lítið fyrir það. „Það er ekki rétt. Þegar það eru framkvæmdir eða verið að byggja upp svæði, þá er mikill músagangur. Það er verið að eyðileggja óðulin. Mýs leita ekki inn til ófreskja sem búa í einhverju steinhúsi eða timburhúsi – það eru risa ófreskjur þar inni – nema þegar hungrið sverfur að. Þær eru í matarleit, matarleit, matarleit.“
Matarleit er það sem skiptir mýsnar öllu máli. Ef þær koma ekki með mat aftur í óðalið þá hefur það varanlegar afleiðingar. „Mýs reka alltaf ákveðinn hóp út og þær koma ekki aftur nema með mat. Ef þær koma heim án þess að vera með mat með sér þá eru þær drepnar. Þá eru þær sjálfar orðnar matur.“
Geta kveikt í húsinu
Jóhannes segir að það sé ekkert krúttlegt við mýsnar þó að sumum finnist þær kannski fallegar. „Þegar þetta er komið inn til okkar, það sem þær geta gert – þær geta farið í rafkerfið hjá þér og kveikt í húsinu. Þær eru smitberar og geta borið inn sjúkdóma. Tjón á smáhlutunum, þetta tilfinningalega það er eitt. En aðalmálið er að þær hreinsa einangrunina af rafmagnstækjum, af raflögnunum inni í húsinu – þær naga allan andskotann. Þær eru með tennur sem þær þurfa að sverfa niður og vinna á, þær eru alltaf að naga eitthvað. Þannig að þetta eru stórhættuleg kvikindi inni í húsunum okkar,“ segir Jóhannes og til samanburðar nefnir hann að ljón séu rosalega falleg þó að þau séu hættuleg.
Meindýravarnir á veitingastöðum er eitthvað sem Jóhannesi er umhugað um og segir að sé mjög mikilvægt sé í lagi. „Ef þær eru ekki í lagi þá á að loka þeim stöðum. Heilbrigðiseftirlitið á að fylgjast með því mjög stíft en það gerir það ekki. Þeir mættu virkilega taka til þar.“
Músafælur hættulegar mannfólkinu
Svokallaðar músafælur sem gefa frá sér hátíðnihljóð hafa verið vinsælar hjá mörgum sem er illa við að drepa mýs. Jóhannes segir að fólk ætti aldrei að nota músafælur. „Músafælurnar eru verri fyrir þig en mýsnar. Þær ráðast á höfuðið á þér – geta valdið þér höfuðverk og óþægindum. Þetta er hátíðnihögg. Hátíðnihögg er notað sem vopn. Og allt sem er notað sem vopn hefur ekki góð áhrif. Músafælurnar fæla mýsnar frá kannski fyrstu vikurnar en svo læra þær inn á það.“
Varðandi eiturkubbana hefur Jóhannes þetta að segja. „Þetta er ekki eitur. Þetta er blóðþynningarlyf. Þetta flokkast undir lyf. Eina eitrið sem er til hér á Íslandi og er löglegt, það heitir alkóhól og er selt í áfengisverslun ríkisins,“ segir Jóhannes að lokum.