Stórhveli strandað í Skötubótinni

Björgunarsveitarfólk bíður í fjörunni og eys vatni reglulega yfir hvalinn. Ljósmynd/Ægir Guðjónsson

Tólf til þrettán metra langan skíðishval rak á land í Skötubótinni í Þorlákshöfn í morgun. Tilkynning um dýrið barst á ellefta tímanum þar sem það var strandað og svamlaði í grunnum sjó.

Þegar fór að flæða frá endaði hvalurinn á þurru landi og hann nýtur nú aðstoðar björgunarsveitarfólks frá Mannbjörgu í Þorlákshöfn og Björg á Eyrarbakka.

„Hann er á þurru landi núna og planið var að draga hann á flot en svo var ákveðið að bíða með það. Það er byrjað að falla að og það er háflóð um klukkan átta í kvöld. Það er stórstreymt svo að við erum bjartsýnir á að það hafist að koma honum aftur á flot,“ sagði Ægir Guðjónsson hjá Björgunarsveitinni Björg í samtali við sunnlenska.is.

„Við breiddum yfir hann teppi og höldum þeim blautum með því að ausa yfir hann sjó. Það lítur út fyrir að hann sé sprellifandi þannig að vonandi hefst þetta. Við erum tilbúnir með bátinn og okkar og lóðsinn í Þorlákshöfn er sömuleiðis í viðbragðsstöðu,“ bætti Ægir við.

Ljósmynd/Ægir Guðjónsson
Ljósmynd/Ægir Guðjónsson
Fyrri greinJóhanna Ýr ráðin framkvæmdastjóri Lágafellssóknar
Næsta greinAftur rafmagnslaust í Rangárþingi