Alvarlegt rútuslys þar sem tuttugu manns slösuðust var sviðsett á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi í morgun.
Markmið æfingarinnar er að æfa sem flesta þætti viðbragðsáætlunar HSu, s.s. stjórnun, bráðaflokkun á vettvangi, áverkamat, meðferð á söfnunarsvæði og flæði sjúklinga inn á stofnunina.
Allir starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi voru kallaðir út vegna slyssins kl. 10:10 í morgun og starfsmenn utan Selfoss voru allir settir í viðbragðsstöðu.
Neyðarstig Almannavarna í samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð var virkjað en í kjallara HSu var viðbragðsstjórn að störfum. Kalla þurfti út sjúkrabíla frá Hvolsvelli vegna slyssins og þyrla Landhelgisgæslunnar var sett í viðbragðsstöðu.