Stórtjón á Helluvaði

Stórtjón varð þegar eldur kom upp í gömlu timburhúsi á Helluvaði við Hellu í kvöld. Íbúi í húsinu hlaut minniháttar brunasár í eldinum. Húsið er að öllum líkindum ónýtt.

Neyðarlínunni bárust boð um eldinn um klukkan hálf níu. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is kviknaði eldurinn í sjónvarpi og breiddist þaðan í sófa og upp í loft. Loft hússins er klætt með frauðplasti og því breiddist eldurinn hratt um þak hússins. Gríðarlegur eldur var í húsinu þegar slökkvilið Brunavarna Rangárvallasýslu kom á vettvang.

Enginn var í húsinu þegar eldurinn kom upp en húsráðandi var úti í garði þegar hann heyrði í reykskynjara. Hann hljóp inn í húsið og reyndi að koma sjónvarpinu út en varð frá að hverfa. Maðurinn brenndist nokkuð á höndum og í andliti.

Slökkviliðið náði fljótt tökum á eldinum og réð niðurlögum hans á skömmum tíma. Ennþá er unnið á vettvangi og húsið verður vaktað í nótt. Rangæingar kölluðu strax eftir liðsauka frá slökkviliðinu á Selfossi en sú beiðni var afturkölluð fimmtán mínútum síðar.

Fyrri greinFjör á sumarmóti
Næsta greinVatnslögn frá Kaldárhöfða möguleg