Stórtjón varð hjá garðyrkjustöðinni Jarðaberjalandi í Reykholti í Biskupstungum í óveðrinu í gærkvöldi.
Stórt gróðurhús á garðyrkjustöðinni gaf sig í veðurofsanum um klukkan 9 í gærkvöldi. Burðarvirki hússins er stórskemmt og ljóst að mikið tjón verður einnig á uppskeru en húsið var fullt af jarðaberjaplöntum.
Að sögn Sigurjóns Sæland, sem tók myndirnar sem fylgja þessari frétt, var versta veðrið í Reykholti í suðaustanáttinni á milli klukkan 20 og 23 í gærkvöldi.
Eitthvað var um rúðubrot í öðrum garðyrkjustöðvum í Reykholti í gærkvöldi og í Laugarási fauk 60 ára gamalt grenitré og lenti á húsi, án þess þó að teljandi skemmdir yrðu á húsinu.

