Stóru sveitarfélögin ekki á þeim buxunum að sameinast

Hella. Ljósmynd/Rangárþing ytra

Erindi Ásahrepps þar sem óskað var eftir afstöðu sveitarstjórna Rangárþings ytra og Rangárþings eystra til sameiningarviðræðna voru tekin fyrir á sveitarstjórnarfundum á Hellu og Hvolsvelli í vikunni.

Ásahreppur hóf þessar þreifingar eftir íbúakosningu sem gerð var þann 1. júní sl. þar sem meirihluti íbúa Ásahrepps var reyndar ekki á því að óska eftir sameiningarviðræðum.

Sveitarstjórn Rangárþings ytra tók erindi Ásahrepps fyrir á fundi á miðvikudaginn og hafnaði því með fimm atkvæðum gegn tveimur.

Fulltrúar Á-listans greiddu allir atkvæði gegn sameiningarhugmyndinni og töldu að þar sem 56% íbúa Ásahrepps væru ekki hlynntir sameiningu þá væri það ekki gott veganesti inn í sameiningarviðræður þessara sveitarfélaga. Þá væri staða Rangárþings ytra sterk og ekkert sem þrýsti á að hefja formlegar sameiningarviðræður að svo stöddu.

Fulltrúar D-listans voru ekki á einu máli um sameiningu. Ingvar Pétur Guðbjörnsson greiddi atkvæði með meirihluta Á-listans og taldi sameiningarviðræður ekki tímabærar í ljósi þess hve óafgerandi niðurstaða íbúakosningarinnar í Ásahreppi væri. Eydís Indriðadóttir og Björk Grétarsdóttir töldu hins vegar það væri skylda sveitarstjórnar að taka þátt í þeirri vinnu sem henni væri falin og að eðlilegast væri að gefa íbúum Rangárþings ytra færi á að taka afstöðu til málsins með því að kjósa um þennan sameiningarkost.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra tók erindi Ásahrepps svo fyrir í gær og blés það strax út af borðinu. Þar sem sveitarstjórn Rangárþings ytra hefði hafnað viðræðum lítur sveitarstjórnin í eystra svo á að forsendur séu brostnar og hafnaði því Rangárþing eystra erindinu með sjö samhljóða atkvæðum.

Fyrri greinHSU flytur heilsugæsluna í uppsveitunum á Flúðir
Næsta greinStarfsfólk sjúkrahúsa fær samfélagsviðurkenningu Krabbameinsfélagsins