Stórum áfanga náð í Búðarhálsvirkjun

Síðasti stóri íhluturinn í vél 2 í Búðarhálsvirkjun, svokallaður rótor, var hífður í vélarhús virkjunarinnar í dag. Vélarhluturinn er jafntframt þyngsti einstaki vélarhlutinn og vel yfir 100 tonn að þyngd.

Hífingin gekk vel og er vél 2 langt komin í uppsetningu. Vél 1 verður tilbúin til prófana á næstu dögum.

Um stóran áfanga í verkinu er að ræða en rótorinn gegnir mikilvægu hlutverki í framleiðslu rafmagns. Rótorinn er stórt segulmagnað hjól sem hverfill vélarinnar snýr. Um rótorinn eru koparvafningar en við hreyfingu segulmagnaðs rótorsins fer rafstraumur að renna um vafningana.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir að bygging Búðarhálsvirkjunar hafi gengið vel og er á áætlun. Kostnaðurinn við verkefnið í heild er nálægt 26 milljörðum króna og bendir allt til þess að endanlegur kostnaður verði nálægt upphaflegum kostnaðaráætlunum.

Vélar stöðvarinnar ásamt tilheyrandi rafbúnaði voru boðnar út á evrópska efnahagssvæðinu. Fjögur tilboð bárust og var í framhaldi af yfirferð tilboða og skýringarviðræðum gerður verksamningur við lægstbjóðanda, þýska fyrirtækið Voith Hydro.

Kostnaðurinn við vélar og vélbúnað er um 6 milljarðar króna. Vélarnar eru tvær og hver vél, ásamt tilheyrandi rafbúnaði, því á um 3 milljarða.

Fyrri greinTöðugjöldin um helgina
Næsta greinJón Daði skoraði í sigri Íslands