Stórvirkar vinnuvélar hófu í morgun að moka sandi upp úr Landeyjahöfn. Áætlað er að framkvæmdin standi yfir í um tíu daga en það er Suðurverk sem sér um verkið.
„Við erum komin þarna með fimm tæki, gröfur, trukka og ýtu. Það stendur til að ná innan úr höfninni sandi, foksandi sem hefur borist inn í hana. Við náum vissum hluta en auðvitað ekki öllu,“ segir Dofri Eysteinsson, framkvæmdastjóri Suðurverks, í viðtali við Morgunblaðið.
Eins og sést á myndinni sem fylgir fréttinni hafa gröfurnar sem um ræðir bómur sem ná lengra en á hefðbundnum gröfum.
Siglingar um Landeyjahöfn hófust fyrst í byrjun maí í fyrra en þeim lauk um miðjan september. Erfiðlega hefur gengið að dýpka Landeyjahöfn frá því að belgíska sanddæluskiptið Galileo 2000 var fengið til landsins í lok febrúar sl.