Strandarkirkja í Selvogi hlaut óvæntan arf á dögunum, þegar í ljós kom að Þórður heitinn Þorgilsson á Stafnshól í Skagafirði arfleiddi kirkjuna að öllum sínum eigum, jörð sinni og lausafé.
Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag.
Þórður var einstæðingur og átti enga lögerfingja og því frjálst að ánafna hverjum sem honum þóknaðist eigur sínar. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru um 50 milljónir króna af lausafé í búinu. Þá er andvirði jarðarinnar ótalið.
Mikill happafengur fyrir sóknina
„Þetta er mikill happafengur fyrir sóknina og mun koma að góðum notum,“ segir Heimir Hannesson, samskiptastjóri Þjóðkirkjunnar, í samtali við Morgunblaðið.
„Þetta mun gjörbreyta rekstrarumhverfi Strandarkirkju og gera henni mögulegt að sinna viðhaldi kirkjunnar í náinni framtíð,“ segir Heimir og nefnir að viðhaldskostnaður á kirkjunni sé hár en tekjur lágar. Aðeins tíu manns greiða sóknargjöld til Strandarkirkju og námu þau tæplega 120 þúsund krónum í fyrra. Á sama ári var kostnaður vegna viðhalds og reksturs fasteigna ríflega 14 milljónir króna. Heildartekjur Strandarkirkju árið 2023 voru rúmlega 9 milljónir. Þar af námu gjafir og áheit 6,6 milljónum króna en Strandarkirkja hefur um langan aldur þótt góð til áheita.