Tugir jarðskjálfta af stærðinni 0,5 til 1,5 hafa mælst við Húsmúla í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar frá því snemma í morgun. Skjálftarnir hafa ekki fundist í byggð svo vitað sé.
„Mín fyrsta túlkun er að þetta sé strangheiðarleg skjálftahrina,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni í samtali við Ríkisútvarpið. „Ég myndi telja þetta vera klassíska jarðskjálftavirkni vegna flekahreyfinga en mögulega er þetta samspil niðurdælingar og flekahreyfinga,“ segir hún.
Vatni úr Hellisheiðarvirkjun er dælt niður í jörðina eftir að það hefur verið nýtt í virkjuninni og er alþekkt að slík niðurdæling hefur valdið skjálftum.