Fjölskylduhátíðin Kótelettan hófst á Selfossi í gær. Dagskrá gærkvöldsins náði hápunkti þegar hljómsveitin Dikta steig á svið á útisviðinu við Hvítahúsið.
Kvöldið hófst með útitónleikum sunnlenskra hljómsveita. Mánar stigu á stokk þegar nálgaðist miðnættið og síðan tók Dikta við keflinu. Um 500 manns voru við útisviðið í Hrísmýri þegar mest var í nótt og fór skemmtunin vel fram.
Í dag verður kjötfestival þar sem m.a. verður heilgrillað naut, svín og lamb á boðstólunum. Barnadagskrá hefst kl. 14 og í kvöld koma Páll Óskar, Raggi Bjarna og Hemmi Gunn og Sálin hans Jóns míns fram á útisviðinu en Karma spilar inni í Hvítahúsinu.
Frítt er í sund á Selfossi um helgina og sömuleiðis er frítt á tjaldsvæðið við Engjaveg fyrir fjölskyldufólk.