Stúlknalið Íslands með brons á EM

Stúlknalið Íslands með verðlaun sín í dag. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands

Stúlknalið Íslands í hópfimleikum lenti í 3. sæti í úrslitum á Evrópumótinu í Baku í Azerbaijan í dag. Fjórir Selfyssingar eru í liðinu.

Í liði Íslands eru þær Elsa Karen Sigmundsdóttir, Kristín María Kristjánsdóttir, Magdalena Ósk Einarsdóttir og Victoria Ann Vokes, allar frá fimleikadeild Umf. Selfoss. Stökkþjálfarar liðsins koma einnig frá Selfossi, þau Mads Pind og Tanja Birgisdóttir.

Úrslitakeppnin í dag var spennandi og íslenska liðið sýndi frábæra frammistöðu. Að lokum fór svo að Svíþjóð sigraði, Danmörk varð í 2. sæti og Ísland hreppti bronsverðlaunin.

Átta iðkendur, þrír þjálfarar og einn dómari frá fimleikadeild Selfoss taka þátt í Evrópumótinu sem lýkur á morgun.

Fyrri greinHamar og Selfoss með góða sigra