Styrktu Krabbameinsfélag Árnessýslu um hálfa milljón króna

Svanhildur Ólafsdóttir og Erla Guðlaug Sigurjónsdóttir, frá Krabbameinsfélagi Árnessýslu, tóku við ávísuninni úr hendi Sóldísar Möllu Steinarsdóttur, formanns skemmtinefndar NFSu. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Árlegir góðgerðardagar voru haldnir í Fjölbrautaskóla Suðurlands í þessari viku og lauk þeim í dag. Á góðgerðardögunum skora nemendur og starfsfólk á hvert annað að framkvæma ýmsar áskoranir ef ákveðin peningaupphæð safnast.

Til dæmis skreið einn nemandi í skólann, skólastjórnendur klæddust grímubúningum, hár var litað bleikt og tveir tóku sig til og hjóluðu frá Reykjavík á Selfoss, svo fátt eitt sé nefnt. Vikan var mjög skemmtileg og iðaði skólinn svo sannarlega af lífi alla vikuna.

Í ár var ákveðið að peningurinn sem safnaðist færi til Krabbameinsfélags Árnessýslu og söfnuðu nemendurnir hvorki meira né minna en hálfri milljón króna, sem fulltrúar Krabbameinsfélagsins fengu afhentar í dag.

-dng.

Fyrri greinLitla hryllingsbúðin frumsýnd í kvöld
Næsta greinKraftmikil byrjun dugði skammt