Styrmir Sigurðarson hefur verið ráðinn í stöðu yfirmanns sjúkraflutninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands frá 1. maí næstkomandi. Hann var valinn úr hópi átta umsækjenda.
Styrmir er fæddur árið 1969 og lauk námi sem bráðatæknir frá Pittsburgh-háskóla í Bandaríkjunum árið 2004.
Auk þess hefur hann lokið námi sem slökkviliðsmaður 1.,2. og 3. frá Brunamálaskólanum 2001, neyðarflutningsnámi frá Sjúkraflutningaskólanum 2001 auk grunnnáms sjúkraflutninga frá Sjúkraflutningaskólanum 2001. Til viðbótar hefur Styrmir öðlast kennsluréttindi í Advanced Life Support og í reykköfun, hann hefur sótt sér endurmenntun á sviði bráðameðferða. Hann hefur einnig menntun á sviði gæðavottunarferla, hópeflis og teymisvinnu fyrir vinnustaði.
Styrmir hefur einnig yfirgripsmikla reynslu sem kennari á sviði neyðarflutninga og endurlífgunar. Hann hefur verið umsjónarmaður grunn- og neyðarflutninganámskeiða á vegum Sjúkraflutningaskólans, verið leiðbeinandi á endurlífgunarnámskeiðum á vegum ERC, Sjúkrahúss Akureyrar fyrir heilbrigðisstofnanir auk annarrar kennslu.
Styrmir hefur fjölbreyttan starfsferil að baki og hefur tekið að sér ýmiskonar verkefni þar sem krafist er hæfileika til stjórnunar og góðs skilnings á rekstri.