Styrr um starfsemi Matvælastofnunar

Nokkur kurr er meðal starfsmanna Matvæla­stofnunar vegna hugmynda um breytingar á stofnuninni, m.a. í þá veru að starfsmenn sem sinnt hafa eftirlitsstörfum í sjávarútvegi verði færðir frá höfuðstöðvum MAST á Selfossi norður á Sauðárkrók.

Sjávarútvegshlutinn var færður á Selfoss árið 2008 með sameiningu Landbúnaðar­stofnunar, matvælasviðs Umhverfisstofnun­ar og matvælasviðs Fiskistofu. Málið mætir andstöðu innan stofnunarinnar og í yfirstjórn hennar og ekki er eining um það innan landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins, en Jón Bjarnason landbúnaðar- og sjávar­útvegs­ráðherra er talinn hallur undir tilfærsl­una.

Miklar breytingar hafa átt sér stað innan eftirlitsgeirans á undanförnum fimm árum með tilheyrandi færslu á starfstöðvum og enn verður breyting á þar sem fækka á umdæmum héraðsdýralækna á þessu ári úr 14 í 6. Þá er jafnframt tekist á um verka­skiptingu Matvælastofnunar og heilbrigðis­eftirlits sveitarfélaga. Allt þetta er til þess að auka á óvissu starfsfólksins að mati þeirra sem Sunnlenska ræddi við.

Guðni Ágústs­son, sem á sínum tíma stóð fyrir flutningi Land­búnaðarstofn­un­ar á Selfoss, sagðist í samtali við blaðið vonast til þess að stofnun­in fengi að vera í friði þar sem hún væri, raunar ein fárra stofn­ana á landsbyggðinni. Sagðist hann telja öruggt að þingmenn kjör­dæm­isins stæðu gegn meiriháttar breyting­um sem yrðu til að draga úr vægi hennar.

Fyrri greinHerjólfur siglir eftir flóðatöflu
Næsta greinRagnar og Guðmunda íþróttamenn ársins