Vinnuhópur sem falið var að fara yfir fyrirkomulag sérfræðiþjónustu leik- og grunnskóla í Sveitarfélaginu Árborg hefur skilað inn skýrslu sinni.
Við skýrslugerðina var meðal annars byggt á fyrirliggjandi gögnum auk viðtala við einstaklinga og hópa sem tengjast skólum í Árborg. Farið var í þetta starf í kjölfar mikilla deilna sem komu upp í bæjarstjórnarmeirihlutanum í Árborg í fyrravor þar sem ekki var samstaða um áform um að Árborg segði sig einhliða úr Skólaskrifstofu Suðurlands.
Að sögn Söndru Dísar Hafþórsdóttur, formanns fræðslunefndar Árborgar liggja þrjár megin tillögur fyrir í skýrslunni sem hægt verður að hafa til hliðsjónar við ákvörðun um framtíðar fyrirkomulag þessara mála.
Er þar um að ræða í fyrsta lagi áframhaldandi aðild að Skólaskrifstofu Suðurlands en með breytingum á formgerð, í öðru lagi að gerður verði þjónustusamningur við skrifstofuna um einstaklingsþjónustu, og í þriðja lagi að segja skilið að fullu við Skólaskrifstofu Suðurlands.
Sandra segir það verða hlutverk vinnuhóps að fara yfir tillögurnar og skila inn einni af þeim þremur til fræðslunefndar. Þar verði málið rætt og í framhaldinu í bæjarstjórn þar sem lokaákvörðun um framtíð sérfræðiþjónustunnar verður tekin.
Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu