Styttist í opnun nýrrar Nettó verslunar

Nýja Nettó verslunin verður staðsett við Eyrarveg 42 á Selfoss. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Ný Nettó verslun opnar innan tíðar við Eyrarveg 42 á Selfossi. Upphaflega stóð til að verslunin myndi opna í sumar en vegna tafa hjá framkvæmdaraðila hefur opnunin tafist örlítið.

„Framkvæmdir hafa gengið vel og er í þessum töluðu orðum verið að setja upp hillurekka í versluninni. Það væri draumur að geta opnað núna á næstunni en það eru þó tafir hjá framkvæmdaaðila svo að nú stefnum við ótrauð á að ná að opna verslunina fyrir jól,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar‑ og mannauðssvið Samkaupa, í samtali við sunnlenska.is.

Ein glæsilegasta verslun landsins
Gunnur segir að þau séu mjög spennt að opna nýja verslun á Selfossi. „Okkar fólk á Selfossi fær daglega spurningar hvenær nýja Nettó verslunin opni. Við erum því full eftirvæntingar að opna.“

„Þetta verður ein glæsilegasta verslun landsins, um 1.000 fm að stærð. Verslunin verður með frábært vöruúrval og við bjóðum Selfyssingum áfram ferskleika, frábært vöruúrval, góða þjónustu og hagstætt verð.“

Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa. Ljósmynd/Aðsend

„Við í Nettó höfum verið á mikilli vegferð í verðlækkunum og því ætti það að vera kjarabót fyrir fólk á Selfossi og nágrenni, ásamt því að viðskiptavinir okkar geta safnað með Samkaupa-appinu sem gerir innkaupin enn betri.“

„Það skiptir okkur hjá Samkaupum máli að geta boðið upp á glæsilega verslun á Suðurlandi, þar sem mikil uppbygging er á svæðinu. Við munum þá reka þrjár verslanir á Selfossi, Nettó Austurvegi, Krambúðina og svo nýja verslun Nettó Eyrarvegi,“ segir Gunnur ennfremur.

Fyrri greinBjörgvin byrjar á ballöðu
Næsta greinHver er ég og hvert er èg að fara?