Styttubandalagið ehf er nýstofnað félag en tilgangur þess er að afla fjár til þess að reisa styttu af Agli Thorarensen, kaupfélagsstjóra, í miðbæ Selfoss.
Beiðni Styttubandalagsins um samstarf við Sveitarfélagið Árborg var tekin fyrir á fundi bæjarráðs í morgun þar sem framtakinu var fagnað og lýsir sveitarfélagið sig reiðubúið til samstarfs.
Egill Thorarensen er oft nefndur faðir Selfoss. Hann hóf ungur verslun í Sigtúnum og varð síðar fyrsti kaupfélagsstjóri Kaupfélags Árnesinga – starf sem hann gengdi í áratugi. Hann var einnig í áratugi stjórnarformaður Mjólkurbús Flóamanna og kom að flestum framfaramálum á Selfossi.
Lengi hefur verið rætt um að reisa styttu Agli til heiðurs og vill Styttubandalagið nú koma málinu á skrið. Undir erindi Styttubandalagsins rita Sigurjón Erlingsson, Guðni Ágústsson, Grímur Arnarson og Leó Árnason. Þeir óskuðu eftir því að sveitarfélagið skipaði allt að þrjá fulltrúa í framkvæmdahóp en bæjarráð taldi það ekki rétt á þessu stigi málsins.