Aðalfundur Suðurlandsvegar ehf. var haldinn í gær og þar var samþykkt að leggja félagið niður.
Suðurlandsvegur ehf var í eigu sveitarfélaga í Árnessýslu og SASS auk Sjóvár og nokkurra fleiri fyrirtækja. Félagið var upphaflega stofnað í kringum hugmyndir Sjóvár um tvöföldun Suðurlandsvegar.
Á aðalfundinum var ákveðið að leggja niður félagið og greiða hluthöfum til baka innborgað hlutafé enda væri hlutverk félagsins að engu orðið og framkvæmdir hafnar við tvöföldun Suðurlandsvegar með annarri aðferðafræði en Suðurlandsvegur ehf lagði upp með.
„Mín skoðun er sú að félagið hafi sannarlega gert sitt gagn, vakið umræðu og viðbrögð í þjóðfélaginu sem öðru fremur ýtti framkvæmdum af stað. Hver sér um þær er aukaatriði í hinu stóra samhengi,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, á heimasíðu sinni.