Suðurlandsvegur verður 2+1 milli Hveragerðis og Selfoss

Breikkun Suðurlandsvegar um Ölfus, milli Hveragerðis og Selfoss, hefst í lok næsta árs en nýrri Ölfusárbrú verður seinkað, samkvæmt samgönguáætlun næstu fjögurra ára, sem birt var á Alþingi í dag.

Greint var frá þessu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra sagði í viðtali í fréttum Stöðvar 2 að Suðurlandsvegur milli Hveragerðis og Árborgar sé afar mikilvæg framkvæmd sem muni skipta verulegu máli.

Fyrirhuguð brú yfir Ölfusá við Selfoss hefur hins vegar verið færð aftar í röðina og er ekki lengur á áætlun næstu fjögurra ára.

„Það er nú ekki síður vegna óskar heimamanna sem við gerum það. Sú framkvæmd er líka tilbúin þannig að við getum farið af stað með það sem fyrst,“ segir Ólöf.

Hringvegurinn um Ölfus verður ekki 2+2 vegur, eins og áður var ráðgert, heldur 2+1 vegur, að sögn ráðherra. Samskonar leið er valin og við endurbætur vegarins um Hellisheiði og Kamba, skilið á milli akreina með vegriði en þeim möguleika haldið opnum að bæta við fjórðu akrein síðar.

Fyrri greinUmf. Selfoss vann stigakeppnina
Næsta greinHSK-ganga á Arnarfell við Þingvallavatn