Búið að opna Suðurlandsveg eftir slys undir Ingólfsfjalli

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Suðurlandsvegur var lokaður í báðar áttir undir Ingólfsfjalli vegna bílveltu nú á áttunda tímanum. Búið er að opna veginn aftur.

Neyðarlínan fékk boð um slysið klukkan 19:17 og var tækjabíll frá Brunavörnum Árnessýslu sendur á staðinn þar sem möguleiki væri á að fólk væri fast í bílnum.

Fernt var í bílnum og voru tveir komnir út úr honum þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Hinir tveir voru aðstoðaðir út úr bílnum en ekki kom til þess að beita þyrfti klippum til þess að ná fólkinu út, að sögn Lárusar Kristins Guðmundssonar, setts varaslökkviliðsstjóra.

Fólkið var flutt á slysadeild til aðhlynningar og rannsakar lögreglan á Suðurlandi tildrög slyssins.

UPPFÆRT KL. 20:12

Fyrri greinH-listinn býður ekki fram í Hrunamannahreppi
Næsta greinEnn logar í gróðri eftir flugelda