Suðurtak bauð lægst í Búrfellsveg

Búrfellsvegur, áður en framkvæmdirnar hófust. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Tilboð í endurbyggingu hluta Búrfellsvegar voru opnuð hjá Vegagerðinni fyrr í vikunni. Það voru heimamenn hjá Suðurtaki ehf á Brjánsstöðum sem áttu lægsta tilboðið, tæpar 178,9 milljónir króna.

Öll tilboðin sem bárust í verkið reyndust vera undir áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar sem var 209 milljónir króna. Þjótandi ehf á Hellu bauð 189,5 milljónir og Vörubílstjórafélagið Mjölnir á Selfossi 195,9 milljónir króna.

Um er að ræða endurbyggingu 4,3 km kafla Búrfellsvegar á milli Búrfells og Klausturhóla í Grímsnesi. Burðarlag vegarins verður endurbætt og hann að lokum klæddur með tvöfaldri klæðningu.

Verkinu á að vera lokið þann 15. júní á næsta ári.

Fyrri greinÞjóðveginum lokað í Öræfum
Næsta greinEinvígis aldarinnar minnst í Kötlusetrinu