Neyðarlínan fékk boð um eld í sumarbústað í Efstadalsskógi, skammt austan við Laugarvatn kl. 15:08 í dag.
Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu á Laugarvatni og í Reykholti fór á staðinn ásamt lögreglu og sjúkraflutningamönnum á Selfossi. Bústaðurinn var mannlaus en nágrannar tilkynntu um eldinn.
Að sögn lögreglu hafði eldur kraumað lengi í bústaðnum og var gríðarlegur hiti inni í honum. Bústaðurinn er mjög mikið skemmdur að innan, ef ekki ónýtur.
Slökkvistarf gekk vel en eldsupptök eru ókunn. Rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi rannsakar upptök eldsins.