Sumarbústaður í landi Miðfells við Þingvallavatn eyðilagðist í eldsvoða eftir hádegi í dag. Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu á Selfossi og Laugarvatni fengu tilkynningu um eldinn laust eftir klukkan hálftvö í dag.
Bústaðurinn var alelda þegar slökkviliðsmenn mættu á vettvang en vel gekk að ráða niðurlögum eldsins.
Einn maður var í bústaðnum þegar eldurinn kom upp en hann náði að forða sér út og slapp án meiðsla.
Eldsupptök eru í rannsókn hjá rannsóknardeild Lögreglunnar á Suðurlandi, sem nýtur liðsinnis tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.