Sumarbústaður í Miðfellslandi við Þingvallavatn brann til grunna í eldsvoða í kvöld.
Einn maður var í húsinu og náði hann að forða sér út og tilkynna um eldinn.
Útkallið barst kl. 19:18 og var þá mikill eldur í húsinu. Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi og Laugarvatni voru kallaðir á vettvang.
Húsið var alelda þegar slökkvilið bar að gerði og hafði eldurinn einnig borist í gróður og lögðu slökkviliðsmenn áherslu á að hindra frekari útbreiðslu gróðureldsins og gekk það vel.
Um 20 slökkviliðsmenn voru ennþá við vinnu á vettvangi um kl. 21 í kvöld en þá var slökkvistarfi að mestu lokið.