Sumarhátíð gróðrarstöðvarinnar Heiðarblóma á Stokkseyri verður haldin í dag. Allir eru velkomnir en hátíðin stendur frá kl. 14 til 17.
Grillaðar verða pylsur, harmonikuleikarar mæta á svæðið og er öllum harmonikuleikurum sem búsettir eru í nágrenninu eða eru á ferðinni velkomið að koma og taka lagið á nikkuna, og ekki er verra ef fólk syngur saman og tekur jafnvel nokkur dansspor.
Gróðrarstöðin Heiðarblómi hefur verið starfandi síðan á níunda áratug síðustu aldar, gróðrarstöðina stofnuðu hjónin Viktoría Þorvaldsdóttir og Magnús Sigurjónsson. Í dag sinnir Magnús ýmsum störfum í gróðrarstöðinni, en Viktoría lést 2007.
Margrét Magnúsdóttir garðyrkjufræðingur sér nú um ræktun og dagleg störf í gróðrarstöðinni, einnig munu tvær stúlkur aðstoða við afgreiðslu og almenn garðyrkjustörf í sumar, þær Elísabet og Natalía Líf. Moldarvinnsla er í gróðrarstöðinni og sér Vilhjálmur Magnússon um hana, hægt er að fá mokað á kerru eða heimkeyrt.