Stór sumarbústaður við Skógarholtsbraut í landi Öndverðarness í Grímsnesi eyðilagðist í eldsvoða í nótt. Bústaðurinn var mannlaus þegar eldurinn kom upp.
Útkallið barst um klukkan 2 í nótt og var sumarbústaðurinn var alelda þegar slökkviliðsmenn frá Selfossi og Hveragerði komu á vettvang. Þéttur trjágróður var umhverfis húsið og var fyrsta viðbragð slökkviliðsmanna að koma í veg fyrir frekari gróðurelda.
Slökkvistarf stóð fram undir morgun og er húsið gjörónýtt.

