Fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð í Vallaskóla á Selfossi en neyðarstigi hefur verið lýst yfir í Grindavík vegna yfirvofandi eldgoss á Reykjanesi og bærinn verður rýmdur.
Vísbendingar eru um að kvikugangur sé kominn undir Grindavík.
Um klukkan átta í kvöld komu fyrstu einstaklingarnir í fjöldahjálpastöðina. Þegar blaðamaður sunnlenska.is kom við í Vallaskóla um hálf ellefu leytið voru komnir 35 einstaklingar og fleiri á leiðinni.
Fólk sem á engan annan samanstað
„Þetta er allt fólk frá Grindavík, fólk sem er búið að búa þar misjafnlega lengi. Það er búið að setja upp hérna þrjátíu bedda og við eigum von á þrjátíu beddum í viðbót frá björgunarsveitinni í Hveragerði. Það er búið að skrá alla inn sem eru komnir þannig að það er allt komið í gagnagrunninn í Reykjavík,“ segir Edda Björk Hjörleifsdóttir, formaður Rauða krossins í Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.
„Við erum hérna ellefu á vakt og við ætlum fljótlega að skipta þessu í vaktir því að maður veit ekki hvað maður þarf að standa hérna lengi,“ segir Edda.
„Sumir voru í svolitlu sjokki þegar þeir komu en núna eru þau hérna inni í eldhúsi og búin að fá borða og kaffi og líður betur. Þetta eru bæði einstaklingar og fjölskyldur – meira þó af fjölskyldum. Það er til dæmis ein fjölskylda hérna með lítið barn og svo var ein kona sem kom hingað og bauð þeim litla stúdíóíbúð í bílskúrnum hjá sér, rétt hjá, þannig að þau fara þangað á eftir,“ segir Edda og bætir því við að þetta sé allt fólk af erlendu bergi brotið, búsett í Grindavík, sem eiga engan annan samastað á Íslandi.
Þiggja mataraðstoð
Edda segir að eins og er þurfi þau ekki auka aðstoð. „En maður veit náttúrulega ekkert hvernig þetta verður – það er stóra spurningin. En ef þetta fer allt á versta veg, það kemur eldgos og íbúar Grindavíkur þurfi að yfirgefa heimili sín þá er vel þegið að þeir Sunnlendingar sem geta opnað hús sín geri það.“
„Við erum bara með smurt brauð og pakkasúpur. Ef einhver fyrirtæki eða einstaklingar sjá sér fært um mataraðstoð þá er það vel þegið. Við erum líka með eldra fólk hérna sem þolir kannski ekki vel að sofa á beddum þannig að ef einhver getur boðið aðstoð og leyft þeim að sofa í betra rúmi þá er það vel þegið,“ segir Edda að lokum.
Þeir sem vilja bjóða fram aðstoð sína með einum eða öðrum hætti geta haft samband við Eddu í síma 898-9451 eða sent tölvupóst á eddabjork@simnet.is.