Síðar á þessu ári mun Sundhöll Selfoss hefja framleiðslu á sínum eigin klór með nýju kerfi sem á að vera umhverfisvænna en núverandi kerfi.
Útboð er í gangi og ætti niðurstaða að liggja fyrir í maí nk.
Með kaupum á klórframleiðslukerfinu verður allur klór fyrir Sundhöll Selfoss framleiddur á staðnum úr salti sem á að vera umhverfisvænni kostur en núverandi ferli. Rekstrarkostnaður lækkar að auki umtalsvert og á nýja kerfið að borga sig upp á nokkrum árum en Bæjarstjórn Árborgar samþykkti í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 framlög til kaupa á nýju kerfi og uppsetningu þess.
Í tilkynningu frá Árborg segir að nokkrar sundlaugar á Íslandi noti kerfi til klórframleiðslu og hefur reynsla þeirra verið góð og það sé því spennandi kostur fyrir sveitarfélagið að fara þessa leið til að lækka bæði rekstrarkostnað og gera starfsemina umhverfisvænni. Til skoðunar er að kaupa sambærilegan búnað fyrir aðrar sundlaugar í sveitarfélaginu síðar verði reynslan góð í Sundhöll Selfoss.