Sundlaugar og þjónustuver Árborgar loka vegna verkfalls FOSS

Sundhöll Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Verkfallsaðgerðir aðildarfélaga BSRB aukast af miklum þunga næstkomandi mánudag og munu félagsmenn í FOSS stéttarfélagi þá leggja niður störf á ýmsum sviðum.

Ef ekki verður samið um helgina munu Sundhöll Selfoss, Sundlaug Stokkseyrar og þjónustuver Sveitarfélagsins Árborgar loka frá 5. júní, til og með 5. júlí eða þar til samningar hafa náðst. Enginn símsvörun verður í síma 4801900, tölvupóstum sem berast á netfangið radhus@arborg.is verður ekki svarað og ekki verður unnið úr ábendingum sem berast í gegnum ábendingargátt sveitarfélagsins.

Starfsemi leikskóla Árborgar mun skerðast mikið frá mánudeginum 5. júní, börn munu ekki getað mætt í leikskólann einhverja daga og leikskólarnir verða lokaðir frá klukkan 11:30 til 12:00 og þurfa þá foreldrar að sækja sín börn til þess að gefa þeim hádegismat.

Þá mun starfsemi áhaldahúss Árborgar skerðast frá og með mánudeginum 5. júní til og með 17. júní, eða þar til samningar hafa náðst.

Fyrri greinÞorsteinn tryggði sigurinn í uppbótartímanum
Næsta greinByggingarréttur auglýstur í Svf. Árborg – heimamenn útilokaðir frá þátttöku