Boðuð gjaldskrárbreyting Orkuveitu Reykjavíkur um næstu mánaðarmót mun hækka verulega hitakostnað í Rangárþingi ytra. Málið var rætt á fundi hreppsráðs í gær.
Á fundi hreppsráðs í gær kom fram fyrirspurn frá D-listanum varðandi hækkun húshitunarkostnaðar heimila, fyrirtækja og stofnana í sveitarfélaginu vegna hækkananna.
Í svari meirihlutans kemur fram að algengur orkureikningur heimila er sagður hækka að meðaltali um 28,5%. Einstakir orkuliðir hækka þó mismikið en dreifing rafmagns mun hækka um 40%, rafmagnsverð um 11% og heitt vatn um 35%.
Á fjárhagsáætlun ársins 2010 er gert ráð fyrir 1.500 þúsund króna heildarkostnaði við sundlaugarvatns á Hellu. Á fundinum í gær kom fram að hækkun á ársgrunni miðað við óbreyttar forsendur frá áætluninni er því 525 þúsund krónur.
Hreppsráð lýsir vonbrigðum með fyrirhugaðar hækkanir og hefur falið sveitarstjóra að koma þeim á framfæri við forsvarsmenn Orkuveitunnar.