Heitavatnsborun á Laugalandi í Holtum hefur tafist nokkuð, ekki síst vegna nálægðar borstaðarins við aðrar borholur Veitna á svæðinu.
Til að mynda hefur ekki verið hægt að nýta heitustu holuna í Laugalandi þar sem stöðva þurfti vinnslu af þessum sökum.
Markmiðið með boruninni er að auka nýtanlegan forða Rangárveitna en notkun heits vatns hefur aukist til muna undanfarin ár í veitunni.
Á meðan á framkvæmdinni hefur staðið hefur hitastig vatns verið lægra en vanalega hjá hluta af viðskiptavinum Rangárveitna. Þar sem veðurspá gerir ráð fyrir kólnandi veðri er fyrirsjáanlegt að notkun heits vatns mun aukast umfram það sem veitan ræður við í núverandi stöðu.
Af þessum sökum er ljóst að draga verður úr notkun heita vatnsins um tíma. Sundlaugunum á Laugalandi, Hellu og Hvolsvelli verður því lokað klukkan 13:00 á morgun, miðvikudag og verða þær lokaðar þar til ástandið lagast.
Í tilkynningu frá Veitum segir að ekki sé víst að lokun sundlauganna spari nægjanlegt heitt vatn til að hægt sé að halda uppi fullri þjónustu hitaveitu við heimili og fyrirtæki á svæði Rangárveitna. Íbúar og fyrirtæki eru því beðin um að leggja sitt af mörkum við að spara heita vatnið eins og mögulegt er. Það er best gert með því að stilla húshita hóflega og sleppa því að láta vatn renna í heita potta. Í kuldatíð er ráðlegt að hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur til að koma í veg fyrir að það kólni innandyra.
Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að borun yrði lokið um miðjan október en markið er sett á að bora niður á 1.800m dýpi til að freista þess að finna gjöfular heitavatnsæðar.
Nú hefur verið borað niður á um 1.400m dýpi en eftir ákveðin vandkvæði við svokallaða sogborun hefur nú verið ákveðið að breyta um borunaraðferð í þeirri von að ljúka megi borun eftir 1-2 vikur.