Umhverfisstofnun hefur fengið tilkynningu um að notendur náttúrulaugarinnar í Landmannalaugum hafi nýverið fengið útbrot vegna sundmannakláða.
Um ræðir sundlirfur fuglablóðagða sem valda útbrotum þegar farið er í vatn þar sem lirfurnar eru til staðar. Kláðabólur myndast þegar ofnæmiskerfi líkamans hefur tekist að stöðva lirfurnar. Sýni menn ekki ofnæmisviðbrögð hefur lirfunni tekist að komast óáreittri inn í líkamann, en þar drepst hún fljótlega.
Blóðögðurnar finnast í andfuglum eins og stokkönd og duggönd sem eiga til að dvelja á svæðinu í Landmannalaugum. Umhverfisstofnun bendir gestum laugarinnar á að enn eru líkur á að gestir geti orðið varir við sundmannakláða baði þeir sig í náttúrulauginni í Landmannalaugum.
Umhverfisstofnun hafði samráð við sóttvarnarlækni og byggist niðurstaða á greiningum frá Tilraunastöðinni á Keldum. Stofnunin í samstarfi við fagaðila vinnur að því að koma í veg fyrir að sundmannakláði berist áfram í náttúrulaugina í Landmannalaugum.