Öll fimmtán stærstu sveitarfélög landsins nema Sveitarfélagið Árborg hafa hækkað gjaldið á stökum miða í sund fyrir fullorðna, en Árborg var með eitt hæsta gjaldið fyrir.
Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verðbreytingar á gjaldskrám sundstaða hjá fimmtán stærstu sveitarfélögum landsins frá 1. janúar 2014 til 1. febrúar 2015.
Mesta hækkunin var hjá Reykjanesbæ eða um 38%. Árskort fullorðinna hefur einnig hækkað í verði hjá ellefu sveitarfélögum af fimmtán.
Stakt gjald í sund kostar 573 kr. að meðaltali. Öll sveitarfélögin nema Árborg hafa hækkað gjaldið á stökum miða en þar kostar stakur miði ennþá 600 kr.
Tíu miða kort hefur hækkað í verði hjá þrettán sveitarfélögum af þeim fjórtán sem selja slík kort. Hæst er það á 4.700 kr. í Kópavogi en lægst á 3.400 kr. í Vestmannaeyjum sem er 38% verðmunur. Tíu miða kort kostar 3.500 kr. í Árborg og hefur ekki hækkað á milli ára.
Allt að 123% verðmunur er á hæsta og lægsta verði árskorts í sund. Hæsta verðið er 35.700 kr. hjá Fljótdalshéraði en lægsta verðið er 16.000 kr. hjá Ísafjarðabæ sem er 19.700 kr. verðmunur. Árskortið kostar 26.500 krónur í Árborg og hefur ekki hækkað frekar en aðrir sundmiðar.
Þrettán sveitarfélög af þeim fimmtán sem voru skoðuð eru með gjaldskrá fyrir börn, en oft er frítt inn fyrir börn sem búsett eru í sveitarfélaginu. Öll börn fá frítt í sund í Árborg, óháð búsetu, en væntanlegar eru breytingar á því fyrirkomulagi þegar nýja Sundhöllin verður opnuð á Selfossi.