Næstkomandi laugardag er Skákdagur Íslands og af því tilefni mun alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson heimsækja Hvolsskóla á Hvolsvelli á morgun, föstudag.
Þar mun hann tefla fjöltefli við nokkra nemendur skólans. Jón Viktor er fyrrum Ólympíumeistari með unglingalandsliði Íslands og hefur um tveggja áratugaskeið verið einn sterkasti skákmaður landsins. Hann er margfaldur Íslandsmeistari í sveitakeppnum og varð árið 2000 Skákmeistari Íslands ásamt því að hafa nokkrum sinnum orðið Hraðmeistari Íslands.
Í hádeginu sama dag verður einnig tekið í notkun sundtafl í sundlauginni. Hægt verður að fá skákborð lánað hjá starfsfólki sundlaugarinnar og svo er bara að skella sér í heita pottinn og tefla.
Áhugasömum er velkomið að koma og fylgjast með.