Sunnlendingar búa sig undir útflutning á sorpi

Sorp var urðað í Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi til ársins 2009. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sorpa hefur tilkynnt að um áramótin verði lokað fyrir frekari móttöku sorps til urðunar frá sveitarfélögum á starfssvæði Sorpstöðvar Suðurlands.

Morgunblaðið greinir frá þessu.

Sveitarfélögin hafa urðað hjá Sorpu um árabil en undanfarið eitt og hálft ár hefur samningur þar um verið framlengdur um mánuð og mánuð í senn. Ekki hefur fundist viðunandi lausn á sorpmálum þarna um slóðir síðan urðunarstað við Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi var lokað árið 2009.

Stefnt var að því að urðuninni yrði fundinn framtíðarstaður á Nessandi í Ölfusi en þær hugmyndir hafa verið slegnar af.

Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri í Hrunamannahreppi og formaður stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands, segir að hann vænti svara frá Sorpu milli jóla og nýárs.

Ef viðræður sigla í strand hyggst Sorpstöð Suðurlands „kanna möguleika í Fíflholti og Stekkjarvík“ eins og það er orðað, eða leita leiða sem fengjust með undanþágu. Meðal þeirra hugmynda sem hafa verið viðraðar fari svo að Sorpa standi við áform sín er að flytja sorp út til Danmerkur og Svíþjóðar til brennslu.

Fyrri greinKrabbameinslæknir hefur störf á HSU
Næsta greinGleðileg jól!