Sunnlendingar komnir yfir 20.000

Sunnlendingum fjölgaði um 1,4 prósent frá 1. janúar 2014 til 1. janúar 2015 og eru nú komnir yfir 20 þúsund.

Mesta tölulega fjölgunin er í Sveitarfélaginu Árborg en þar fjölgaði íbúum um 163, eða 2,1 prósent.

„Þetta er heldur meiri fjölgun en verið hefur á undanförnum árum. Þetta er jákvæð þróun, en hvort það er eitthvað eitt sem skýrir hana er erfitt að segja. Þó má benda á að húsnæðisverð er lægra hér en á höfuðborgarsvæðinu og að kostnaður við að sækja vinnu út fyrir Árborg hefur heldur lækkað með lægra eldsneytisverði,“ sagði Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

„Við finnum að það er fólk á öllum aldri sem er að flytja hingað, en flestir eru undir fertugu, í desember síðastliðnum voru til dæmis 33 af 43 sem fluttu í sveitarfélagið undir 40 ára aldri, þar af sex börn á grunnskólaaldri og fjögur á leikskólaaldri,“ bætti Ásta við.

Mesta prósentufjölgunin varð hins vegar í Ásahreppi, sem er fámennasta sveitarfélagið á Suðurlandi, og munar verulega um hvern íbúa í prósentum. Þar fjölgaði íbúum um 23 eða 11,9 prósent.

Íbúum fjölgaði í átta sveitarfélögum en auk Árborgar og Ásahrepps eru það Bláskógabyggð (3,2%), Rangárþing eystra (2,4%), Hveragerði (2,2%), Grímsnes- og Grafningshreppur (2,1%), Skaftárhreppur (1,8%) og Hrunamannahreppur (1,1%).

Fækkun í fimm sveitarfélögum
Mesta tölulega fækkun íbúa varð í Ölfusinu en þar fækkaði um 21 íbúa, eða -1,1 prósent. Í prósentum fækkaði íbúum Flóahrepps hins vegar mest. Þar fækkaði um fimmtán íbúa eða um 2,4 prósent.

„Nú standa tvö íbúðarhús í hreppnum tímabundið auð og það munar mikið um það í litlu sveitarfélagi,“ sagði Eydís Indriðadóttir, sveitarstjóri Flóahrepps, í samtali við sunnlenska.is og bætti við að sú staða ætti eftir að breytast á þessu ári eða því næsta.

Auk Ölfuss og Flóahrepps varð fækkun á íbúum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi (-2,3%), Mýrdalshreppi (-1,8%) og Rangárþingi ytra (-0,3%).

Íbúafjöldi í sunnlenskum sveitarfélögum 1. janúar 2015:
Sveitarfélagið Árborg 8.052
Hveragerði 2.384
Sveitarfélagið Ölfus 1.885
Rangárþing eystra 1.749
Rangárþing ytra 1.548
Bláskógabyggð 961
Hrunamannahreppur 794
Flóahreppur 616
Skeiða- og Gnúpverjahreppur 518
Mýrdalshreppur 480
Skaftárhreppur 460
Grímsnes- og Grafningshreppur 431
Ásahreppur 216
SAMTALS 20.094

Fyrri greinStyrmir ráðinn yfirmaður sjúkraflutninga
Næsta greinÖruggt hjá Selfyssingum gegn ÍH