Nýlega tóku nýir eigendur við skemmtistöðunum Sviðið, Miðbar og Risið í miðbæ Selfoss. Staðirnir hafa þótt mikil lyftistöng fyrir skemmtanalíf Sunnlendinga síðan þeir opnuðu fyrir þremur árum.
Nýju eigendurnir eru þau Davíð Lúther Sigurðarson, Tómas Þóroddsson, Ida Sofia Grundberg, Margrét Rún Guðjónsdóttir og Linda Björk Hilmarsdóttir en sú síðastnefnda er framkvæmdastjóri staðanna.
„Þetta var spennandi tækifæri sem vakti áhuga okkar og við sáum möguleikana í því. Einnig höfum við alltaf haft gaman af því að takast á við nýjar áskoranir. Staðirnir þrír hafa svo sannarlega verið reknir með sóma og við erum heppin að taka við góðu búi en að sjálfsögðu fylgja nýju blóði nýjar áherslur og hugmyndir,“ segir Linda í samtali við sunnlenska.is.
Linda segir að þau sjái ýmis tækifæri í því að efla enn frekar skemmtanalíf og viðburði sem áður hefur verið í boði.
„Ýmsar hugmyndir eru á teikniborðinu en svo erum við líka opin fyrir því að heyra hvað Sunnlendingum þykir vanta og hvað þeir vilji sjá meira af, því í grunninn er það þjónustan við fólkið sem við brennum fyrir og án þeirra væri ekki rekstrargrundvöllur.“
Stuð og Skítamórall
Nóg er um að vera á Sviðinu í desember en mörgum þykir ómissandi að lyfta sér upp í annríkinu sem á það til að fylgja aðventunni.
„Það er hellingur framundan hjá okkur má þar til dæmis nefna að Stuðlabandið verður með þrjá tónleika fyrir jól. Það þarf líklega ekki að sannfæra neinn Sunnlending um stuðið sem verður á þeim tónleikum.“
„Þann 27. desember er Skítamórall, eitt af okkar allra bestu ball-böndum að mæta. Þeir fagna einnig 35 ára starfsafmæli nú í ár, atvinnumenn í bransanum sem enginn vill missa af.“
„Við erum virkilega spennt fyrir komandi tímum. Sunnlendingar hafa sýnt það margoft að þeir kunna að hafa gaman og eru virkilega duglegir að mæta á viðburði. En eins og ég nefndi áðan þá tökum við fagnandi á móti öllum ábendingum og hugmyndum,“ segir Linda ennfremur.