Sunnlendingar spari rafmagn

Íbúar á Suðurlandi eru hvattir til að draga úr rafmagnsnotkun eins og kostur er í nótt á meðan skipt verður um aflspenni Búrfellsstöðvar.

Landsvirkjun segir að við reglubundið eftirlit á aflspennum í stöðinni hafi veikleiki komið í ljós í einum þeirra. RARIK segir að ekki sé búist við neinu straumleysi.

Segir á vef Landsvirkjunar að talin sé að hætta sé á því að veikleikinn geti síðar leitt til bilunar á spenninum. Því hafi verið ákveðið að skipta út umræddum aflspenni.

Reiknað sé með að aðgerðin taki sex klukkustundir en meðan á henni standi er nauðsynlegt að aftengja 66kV tengivirki og fjórar aflvélar Búrfellsstöðvar.

RARIK hvetur íbúa til að draga úr rafmagnsnotkuninni í nótt, aðfararnótt 31. mars, á meðan skipt verður um spenni. Það sé ekki rétt sem komi fram á vef Landsvirkjunar að það verði straumlaust á hluta Suðurlands í nótt á meðan framkvæmdin stendur yfir.

Fyrri greinLandeyjahöfn lokuð fram yfir helgi
Næsta greinEftirsótt störf á Hrauninu