Sunnlendingar sýni biðlund vegna óvissu í bólusetningum

Bólusetningarteymi á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi að störfum. Ljósmynd/HSU

Á Heilbrigðisstofnun Suðurlands er nú langt komið að bólusetja fólk fætt fyrir 1943, sem og forgangshópa í heilbrigðiskerfinu.

Í tilkynningu frá HSU segir að áfram verði haldið með bólusetningar niður aldursröðina auk þess sem farið verður að bólusetja einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma.

„Við fáum bóluefni úthlutað til okkar eftir fjölda íbúa á okkar svæði. Afar óreglulegar sendingar á bóluefni setja okkur þær skorður að við getum ekki áætlað hvenær röðin kemur að hverjum og einum. Við biðjum því alla íbúa um að sýna biðlund í þeirri óvissu sem við stöndum frammi fyrir í þessum málum,“ segir í tilkynningunni frá HSU.

Í gær voru tveir í einangrun í Vík í Mýrdal vegna COVID-19 og einn í sóttkví. Tveir aðrir voru í sóttkví á Suðurlandi og 118 í sóttkví eftir að hafa farið í gegnum skimun á landamærunum.

Fyrri greinHamar með mikilvægan sigur – Selfoss tapaði naumlega
Næsta greinRúmar 20 milljónir króna til sunnlenskra íþróttafélaga