Sunnlendingar voru 19.549 þann 1. janúar 2012 og hafði fækkað um 0,6%, eða 111 frá sama tíma árið áður. Mesta tölulega fækkunin er í Árborg þar sem fækkaði um 44 íbúa.
Hagstofan hefur nú birt íbúatölur í sveitarfélögum þann 1. janúar sl. Í tölum sem sunnlenska.is les úr eru tekin saman sunnlensk sveitarfélög, utan Hornafjarðar og Vestmannaeyja.
Sunnlendingar voru 19.660 í fyrra en nú eru þeir 19.549.
Íbúum fækkar í átta af sveitarfélögunum þrettán, mest í Bláskógabyggð, um 29 eða 3,1%. Íbúum Hrunamannahrepps fækkar um 2,6% og íbúum Mýrdalshrepps um 2,1%.
Fjölgar um tíu karla í Ásahreppi
Mesta tölulega fjölgunin er í Grímsnes- og Grafningshreppi þar sem fjölgar um 16 íbúa eða 4,0%. Mesta prósentufjölgunin er í Ásahreppi eins og svo oft áður en þar fjölgar um tíu íbúa, eða 5,2%, og eru íbúar hreppsins nú 204. Athygli vekur að þeir tíu sem fjölgar um eru allir karlmenn.
Í Rangárvallasýslu fækkar íbúum um nítján og eru íbúar þar nú 3.245. Fækkunin á sér öll stað í Rangárþingi ytra en íbúatala Rangárþings eystra stendur í stað.
Vestur-Skaftfellingum fækkar um þrettán. Í Mýrdalshreppi fækkar um tíu íbúa en þrjá í Skaftárhreppi og búa nú 902 íbúar í sýslunni.
Jafnt kynjahlutfall í Rangárþingi ytra
Sunnlenskum karlmönnum fækkar um 76 en konunum um 35. Flestir karlar fluttu úr Árborg, 30 talsins en konunum fækkaði mest í Hveragerði, þar sem 23 fluttu í burtu. Körlunum fjölgar hins vegar mest í Ölfusinu, um 11 en í Flóahreppi fjölgaði um sex konur.
Ef rýnt er í kynjahlutföll sveitarfélaganna eru karlarnir ívið fleiri í flestum sveitarfélögum. Þó vekur athygli karlmannsskortur í Bláskógabyggð þar sem þeir eru 22 færri en konurnar. Í fyrra fluttu 23 karlar úr Bláskógabyggð.
Í Rangárþingi ytra er fullkomið jafnvægi en þar eru íbúarnir 1504, 752 karlar og 752 konur.