Í ár verður Sunnlenski sveitadagurinn haldinn í sjötta sinn, laugardaginn 3. maí. Sýningin er fjölsótt en um 10.000 manns hafa sótt hana árlega.
Jötunn og Vélaverkstæði Þóris standa saman að deginum sem er óður til landbúnaðarins og verður að venju haldinn á athafnasvæði fyrirtækjanna tveggja, við Austurveg 69 á Selfossi.
Sunnlenski sveitadagurinn er fjölbreytt fjölskylduhátíð þar sem gestum er boðið að upplifa sveitastemmningu og bragða á afurðum bænda. Undanfarin ár hefur Félag kúabænda heilsteikt naut á staðnum og Félag sauðfjárbænda grillað lambakjöt, og hafa gestir kunnað vel að meta það. Sunnlenskir bændur fá tækifæri til að kynna og selja afurðir sínar á sýningarsvæðinu og kennir þar ýmisa grasa, enda stór atvinnugrein á Suðurlandi. Gefið er smakk af ýmiskonar matvörum beint frá býli, margvíslegt handverk og listmuni á markaðstorgi. Sýning er á landbúnaðarvélum nýjum og gömlum og tæki og tól eru til sölu. Mörg góð tilboð eru í boði, en á Sunnlenska sveitadeginum hafa menn gert góð kaup í smáu og stóru.
Setning hátíðarinnar fer fram með hátíðlegum hætti utandyra klukkan 13:00, en sýningin stendur frá kl. 12:00-18:00.
Auk þess að sýningin sé óður til bænda er bryddað upp á ýmsu fróðlegu og skemmtilegum uppákomum sem vekja gleði og kátínu. Íslandsmeistaramót í baggakasti hefur slegið í gegn, en þar er keppt við mikinn fögnuð bæði í kvenna- og karlaflokki. Undanfarin ár hafa glímubrögð verið kennd undir leiðsögn HSK og Samtök ungra bænda brugðið á leik með gestum og börnum gefst kostur að fara á hestbak. Andlitsmálun er í boði fyrir börnin og vísir af dýragarði með íslenskum húsdýrum á útisvæðinu. Íslenska landnámshænan og fjölskrúðugar dúfur hafa mikið aðdráttarafl.
Sunnlenski sveitadagurinn er hátíð þar sem fullvíst er að gestir sýningarinnar upplifi einstaklega skemmtilegan dag.
Þema sýningarinnar 2014 eru afurðir Sunnlenskra bænda. Lögð áhersla að kynna fjölbreytt störf bænda og framlag þeirra til matvælaiðnaðarins, garðyrkju- og skógræktar, korn- og landgræðslu og ekki síst ferðamennskuna sem er ört vaxandi atvinnugrein.
Sýningarráð Sunnlenska sveitadagsins skipa Auður I Ottesen sýningastjóri, Guðmundur Þór Guðjónsson fjármálastjóri Jötun og Ólafur Jósefsson hjá Vélaverkstæði Þóris.