Aðalfundur Lögreglufélags Suðurlands skorar á yfirstjórn lögreglumála að tryggja að öryggismálum lögreglumanna, þjálfun þeirra og búnaði verði án tafa komið í það horf sem kveðið er á um í reglum ríkislögreglustjóra.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu, en fundurinn var haldinn í kvöld. Þar segir að hún sé sett fram í ljósi aukinnar tíðni verkefna þar sem öryggi lögreglumanna er stefnt í hættu.
Að sögn Hermundar Guðsteinssonar, eins stjórnarmanna félagsins, voru öryggismál lögreglumanna mikið rædd á fundinum. „Þetta er okkur mjög hugleikið, þessi aukna harka sem er að færast í starfið okkar. En með þessu erum við ekki endilega að tala um vopn eða einhverskonar valdbeitingartæki,“ segir Hermundur í samtali við mbl.is.
Hann segir málið fyrst og fremst snúast um þá þjálfun sem lögreglumenn fái til að fást við aðstæður þar sem þeim sé hætta búin.