Svæðisstjórn hefur verið virkjuð á Selfossi en búist er við að veður versni hratt á Suðurlandi þegar dregur nær hádeginu.
Í svæðisstjórn eru saman komnir fulltrúar lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita og Vegagerðarinnar. Viðbragðsaðilar vinna nú að því að yfirfara búnað og tæki til ásamt því að undirbúa sig fyrir verkefni sem búast má við að fylgi versnandi veðri.
Í morgun unnu félagar í Björgunarfélagi Árborgar að því að standsetja bíla og tæki eftir aðgerðir gærdagsins og næturinnar. Síðasti hópur hjá Árborg fór í hvíld klukkan 8:30 í morgun, á sama tíma og aðgerðastjórnendur dagsins í dag voru að mæta í hús.
Búast má við víðtækum lokunum á vegum á Suðurlandi vegna ófærðar og biður lögregla ökumenn að vera ekki á ferð að nauðsynjalausu og virða lokanir lögreglu og vegagerðarinnar. Einnig er líklegt að færð muni spillast innabæjar. Af gefnu tilefni er áréttað að björgunarsveitir starfa í umboði lögreglu við lokanir á vegum og meiga ökumenn sem ekki virða þær lokanir búast við sektum.
Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir suðvesturland í allan dag. Búist er við vestan stormi eða roki og hviðum allt að 40 m/s og mjög blint í snjókomu eða skafrenningi. Hvassast við ströndina.
UPPFÆRT KL. 11:26: Vegna veðurs hefur Hjálparsveit skáta í Hveragerði ákveðið að aflýsa opnu húsi sem átti að vera í tilefni af 112 deginum.
UPPFÆRT KL. 14:32: Götur á Hvolsvelli eru sumar hverjar að verða ófærar. Björgunarsveitin Dagrenning bendir á að allir vegir í Landeyjum og Fljótshlíð séu merktir ófærir. Mælum með góðri mynd í tækið, teppi og heitt kakó uppí sófa í dag.
UPPFÆRT KL. 14:35: Búið er að fresta leik ÍR og Selfoss í Olísdeild karla í handbolta, sem fara átti fram í kvöld, vegna veðurs. Nýr leiktími er á morgun mánudag klukkan 19:00.
UPPFÆRT KL. 15:19: Vakin er sérstök athygli á að Reykjanesbraut er nú lokuð.
UPPFÆRT KL. 17:40: Lokað er milli Víkur og Markarfljóts. Búast má við því að vegkaflinn verði lokaður fram á mánudag.
UPPFÆRT KL. 18:05: Þjóðvegurinn er lokaður fyrir austan Hvolsvöll, austur í Vík.
UPPFÆRT KL. 22:05: Búið er að opna frá Laugarvatni niður að Selfossi