Súrefnismæling gaf eðlilegar niðurstöður

Lögreglan á Suðurlandi ásamt slökkviliðsmönnum frá Höfn, í samvinnu við Veðurstofu Íslands, mældu í dag gasstyrk í íshelli í Breiðamerkurjökli vegna tilkynninga sem bárust í gær um gasmengun þar.

Mælingarnar sýndu ekki mælanlegan styrk H2S, SO2 og CO í hellinum í dag og súrefnismæling gaf eðlilegar niðurstöður, ennfremur var enga lykt að finna á svæðinu eða í hellinum.

Það verður því að ætla að gasmengunin, sem menn urðu varir við í gær, hafi verið tilfallandi og staðið stutt yfir, en orsök og uppruni hennar er óþekktur.

Ekki er vitað um nýlegar jarðhræringar á upptakasvæði þess vatns sem kemur fram undan Breiðamerkurjökli.

Gasmengunin í gær sýnir að gæta þarf ýtrustu varkárni þegar farið er um íshella hér á landi.

Fyrri greinFrjálsíþróttaskólinn haldinn í tíunda sinn
Næsta greinMinningar sem tengjast Hveragerði