Gríðarlega mikið magn af snjó hefur safnast upp á Eyrarbakka og Stokkseyri eftir skafrenninginn síðustu daga. Ástandið var líklega einna verst við Túngötuna á Eyrarbakka, þar sem íbúarnir í húsi númer 32 voru hreinlega snjóaðir inni.
En samtakamáttur Eyrbekkinga er mikill. Í gær mættu lögreglumenn til þess að moka Emmu Guðlaugu Eiríksdóttur og Hafþór Gestsson út og fljótlega dreif að vini og nágranna sem tóku til óspilltra málanna og mokuðu göng að útidyrahurðinni.
„Glöð að sjá loksins upp í himininn“
„Þetta er algjört einsdæmi. Við erum búin að búa í þessu húsi síðan 1979 og það hefur oft komið mikill snjór en þetta hefur aldrei verið svona mikið. Ég átti bara ekki orð yfir þessu og var orðin full vonleysis yfir stöðunni. Við vorum búin að vera lokuð inni að mestu leiti síðan á laugardaginn og á sunnudaginn var allt orðið lokað, allar hurðir og gluggar og það skóf inn í húsið þannig að við vorum að moka snjó inni og bræða hann í baðkarinu. Þó að við höfum ekki haft neitt að gera út úr húsi þá er það virkilega óþægileg tilfinning að vita af því að maður komist ekki út, ef eitthvað kæmi uppá,“ sagði Emma í samtali við sunnlenska.is.
„Það er mikið af góðu fólki hérna í kringum okkur, fyrst komu fimm lögregluþjónar og svo bættust við vinir og nágrannar. Það var meira að segja lokað einni deild á leikskólanum og börnin færð á aðra deild og starfsfólkið kom hérna yfir til okkar og hjálpaði til. Þetta var mikill léttir og við erum glöð að sjá loksins upp í himininn,“ bætti Emma við og að sjálfsögðu bauð hún fólkinu upp á kaffi og vöfflur með rjóma að mokstri loknum.
Stórvirkar vinnuvélar eiga fullt í fangi
Túngatan hefur verið algjörlega ófær frá því á laugardag og tilraunir til snjómoksturs skiluðu litlum árangri, fyrr en í gær þegar loksins lægði vind og stórvirkar vinnuvélar gátu tekið til óspilltra málanna, en þær áttu fullt í fangi með moksturinn.
Ástandið var svipað á Stokkseyri þar sem nánast enginn snjómokstur fékkst í fjóra daga og íbúar áttu margir hverjir í miklum vandræðum með að komast til og frá vinnu, hvað þá í búð. Skólahald í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri var blásið af í byrjun vikunnar vegna ófærðar, þannig að ennþá á eftir að halda litlu jólin. Þau verða haldin strax á nýju ári.
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá Eyrarbakka og Stokkseyri.