Svanhildur Guðbrandsdóttir frá Syðri-Fljótum í Meðallandi er dúx Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi á vorönn 2019.
Í dag voru 105 nemendur brautskráðir frá skólanum, þar af 80 stúdentar og flestir þeirra af opinni línu, 41 talsins.
Auk þess að dúxa hlaut Svanhildur viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í hestatengdum greinum og einnig hlaut hún viðurkenningu frá Hollvarðasamtökum FSU, eins og þær Sigurlín Franziska Arnarsdóttir frá Herríðarhóli í Ásahreppi og Álfheiður Østerby frá Þorlákshöfn.
Álfheiður hlaut einnig Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi og eftirtektarverðan árangur á sviði leiklistar. Álfheiður fékk að auki verðlaun fyrir prýðilegan árangur í íslensku, sögu og stærðfræði.
Fjöldi annarra nemenda hlaut viðurkenningar fyrir góðan árangur í einstökum námsgreinum.