Á aðalfundi LeiðtogaAuða, sem haldinn var í lok maí, tók Selfyssingurinn Svanhildur Jónsdóttir við sem formaður. Svanhildur starfar sem sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
LeiðtogaAuður er sérstök deild innan Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA, fyrir konur sem hafa yfirgripsmikla stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu, bæði einkageiranum og hinum opinbera.
Auk Svanhildar eru í nýju stjórninni þær Elfa Björg Aradóttir gjaldkeri, Ása Karín Hólm ritari, Harpa Böðvarsdóttir, Herdís Pála Pálsdóttir og Ragnheiður Aradóttir.
Tilgangur LeiðtogaAuðar er að efla tengslanet kvenna í stjórnunar- og áhrifastöðum í atvinnulífinu og að auka þátttöku og áhrif kvenna í atvinnulífinu. „Það er LeiðtogaAuðum mikilvægt að styrkja tengslanetið, efla þekkingu og geta leitað til hvor annarrar,“ segir Svanhildur og bætir við að nýja stjórn hlakki til að tengjast og hefja nýtt starfsár, þar sem konur upplifa hvatningu, séu fyrirmynd og upplifi stuðning.
Eftir hefðbundin aðalfundarstörf og stjórnarkjör var sumri fagnað og glaðst yfir því að geta hist.