Svanur sæmdur fálkaorðunni

Svanur Ingvarsson með fálkaorðuna á Bessastöðum í dag. Ljósmynd/María Óladóttir

Svanur Ingvarsson, kennari og húsasmíðameistari á Selfossi, var einn þeirra fjórtán sem forseti Íslands sæmdi heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag.

Svanur var sæmdur riddarakrossi fyrir framlag í þágu íþróttastarfs fatlaðra. Svanur hefur unnið ötullega að íþróttastarfi og félagsmálum fatlaðra og var meðal annars fyrsti Íslendingurinn til að keppa á Vetrarólympíumóti fatlaðra í Lillehammer 1994 þar sem hann keppti í stjaksleðakeppni. Þá hefur hann sinnt trúnaðarstörfum fyrir Íþróttasamband fatlaðra, Sjálfsbjörgu á Suðurlandi og Íþróttafélagið Suðra.

Meðal annarra fálkaorðuhafa var Rangæingurinn Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, sem var sæmdur riddarakrossi fyrir þjónustu í þágu samfélagsins á tímum hamfara.

Tólf af fjórtán orðuhöfum á Bessastöðum í dag ásamt forsetahjónunum. Ljósmynd/Forsetaembættið
Svanur ásamt fjölskyldu sinni á Bessastöðum, eiginkonunni Maríu Óladóttir, móður sinni Helgu Guðmundsdóttur og börnunum Ara Steinari og Hörpu.
Fyrri greinHjálmar Vilhelm með frábæran árangur á NM í tugþraut
Næsta greinSunnlensku fjallkonurnar 2024